共用方式為


Innleiðing Office 365 í Menntaskólann að Laugarvatni

Léttskýjað og skyggni gott að Laugarvatni.

Innleiðing Office 365 í Menntaskólann að Laugarvatni.

ml

Menntaskólinn að Laugarvatni (ML) er framhaldsskóli með um 150 nemendur.  Skólinn er heimavistarskóli og búa flestir nemenda á heimavist skólans.  Húsnæði skólans er því bæði heimili og vinnustaður þessara 150 nemenda og þarf því að uppfylla nútíma kröfur samfélagsins.

ML hefur verið þátttakandi í skýjaþjónustu Microsoft frá því að hún ruddi sér til rúms eða frá um 2007.  Þá hét hún Live@edu og bauð aðallega uppá að hýsa tölvupóst í skýinu, í kringum árið 2010 breyttist nafn þjónustunnar í Office 365 (O365) og skólinn var stuttu síðar fluttur í nýju þjónustuna.  Vorið 2016 var skólinn svo fluttur í nýjustu útgáfu O365 og eftir það hefur notkun þjónustunnar aukist til muna.

Haustið 2014 var undirrituð ráðin sem verkefnastjóri við skólann í 50% stöðu og er mitt hlutverk m.a að aðstoða kennara og nemendur við innleiðingu og notkun á tölvutækninni og þar með talið O365.  Haustið 2016 hóf ég þátttöku í MIE Expert verkefninu hjá Microsoft.  Þar fæ ég fyrstu fréttir af nýjungum hjá Microsoft og get einnig miðlað og fengið aðstoð við það sem helst brennur á í hvert skiptið.

Innleiðing á kerfi eins og O365 tekur tíma og höfum við tekið nokkur örugg en ákveðin skref.  Á fyrstu árunum var aðeins um að ræða að nota tölvupóst sem var á netinu og því aðgengilegur hvar og hvenær sem er. Næsta skref var að fá nemendur til að nýta sér sinn tölvupóst og Onedrive til gagnageymslu.

Nemendur og starfsfólk hafa allir aðgang að sínu @ml.is netfangi og geta því notað O365 online, en einnig er skólinn með Microsoft skólasamning sem gerir það að verkum að hægt er að bjóða uppá Office pakkan í persónulegar tölvur nemenda og starfsfólks.

Helstu verkfæri sem við notum hér í ML eru Onenote og Onenote Class Notebook bókin.  Einnig hafa nemendur og kennarar nýtt sér Sway og Office Mix til að setja fram efni og auðvitað eru gömlu góðu Office forritin eins og Word, Excel, PowerPoint og Outlook í stöðugri notkun.  Onedrive er í almennri notkun bæði hjá nemendum og kennurum og einnig er komið dágott safn kennslumyndbanda inná Video svæði skólans sem er aðgengilegt nemendum til fróðleiks og ýtarefnis.

Önnur verkfæri sem kennarar eru að kynna sér eru t.d. Planner sem er tæki til að halda utanum skipulag og Forms sem er tæki til að búa til kannanir og próf.

Á haustdögum 2016 hélt ég námskeið eða kynningu á þeim verkfærum sem voru þá komin inn í O365, kennarar fengu hugmyndir og mátuðu þær í sína kennslu.   Í framhaldi hef ég svo aðstoðað þá við að innleiða þá hluti sem þeir vilja nota í kennslunni og tileinka sér ný vinnubrögð með O365.

Onenote og Onenote Class Notebook

onenote_mynd1

Dæmi um notkun á Onenote og Onenote Class Notebook er t.d. hjá líffræðikennaranum sem nýtir sér alla möguleika Onenote Class Notebook í sinni kennslu.  Hann er með Onenote Class Notebook bók fyrir hvern áfanga þar sem hann deilir út verkefnum og nýtir sér einnig Onenote Class Notebook viðbótina í Onenote til að fara yfir verkefni og skrifa endurgjöf til nemenda.  Núna á vordögum mun hann nýta sér kennslukerfið Microsoft Classroom og tengja þar saman þessi tvö spennandi verkfæri.

Annað dæmi um notkun Onenote Class Notebook, kennari setur nemendum fyrir skiladæmi í stærðfræði og eðlisfræði, nemendur vinna verkefnið í tölvunni eða á blað, en taka þá mynd af úrlausn og setja inní Onenote Class Notebook verkefnaskilin sín.

Það má segja að Onenote hefur haft mestu áhrifin á kennslu og samskiptum við nemendur núna uppá síðkastið og er það verkfæri sem kennarar eru hrifnastir af og eru flestir þeirra að nýta sér Onenote á einn eða annan hátt.

Sway

sway-mynd1

Dæmi um notkun á Sway í kennslu er t.d. að kennari setur fram efni sem hann þarf að koma á framfæri í Sway og sendir nemendum tengilinn eða setur hann inn í Onenote bekkjarbókina.

Annað dæmi um notkun á Sway er að kennari býður nemendum uppá að skila verkefni í formi Sway kynningar.  Nemendur eru mjög fljótir að tileinka sér nýja hluti og þau voru fljót að sjá kosti Sway til framsetningar á efni.

 

Office Mix og Video svæðið

officemix-mynd1 Office Mix viðbótin í PowerPoint og O365 Video eru kjörin verkfæri fyrir þá kennara sem vilja t.d. nýta sér vendikennslu.  Dæmi um notkun á því hér í ML er að kennari tekur upp fyrirlestra í eðlisfræði í Office Mix og vistar svo kennslumyndböndin á Video svæðinu þar sem nemendur geta skoðað þau hvenær sem er.  Viðkomandi kennari notar einnig iPad við vinnu en Office Mix mun verða aðgengilegt í öllum PowerPoint forritum í framtíðinni og mun þá einnig verða aðgengilegt í iOS og Android tækjum.

Video svæðið er notað til verkefnaskila í ýmsum áföngum þar sem auðvelt er að stjórna réttindum og myndböndin bara aðgengileg t.d. nemendum og kennurum eða einstaklingum, ekki öllum heiminum.

Annað dæmi um nýtingu á videó svæðinu er að íslenskukennarinn er með kvikmyndaverkefni þar sem nemendur taka sig upp og gagnrýna sig á upptökunni.  Það er kjörið að skila verkefninu á O365 video svæðið þar sem aðeins viðkomandi nemandi og kennari hafa aðgang að því.

Haustið 2016 settum við aukinn kraft í innleiðinguna með kynningu og fræðslu en síðan þá hefur margt þróast og bæst við.  O365 er í mikilli þróun og það er gaman að sjá hversu mörg verkfæri eru nú komin í almenna notkun.  Við lítum fram veginn og bíðum spennt eftir því sem koma skal og erum núna tilbúin til að taka á móti nýjungum um leið og þær koma.

 

Elín Jóna Traustadóttir | Dipl. Ed og MCP

Verkefnastjóri ML